skip to Main Content

Styrkur til samfélagsins á Ísafirði

Orkuvirki ehf. veitti í sesember sl. sex félögum samfélagsstyrki, samtals að fjárhæð 2,3 milljónir króna. Félögin sem fengu styrk eru Íþróttafélagið Kubbi, Edinborgarhúsið, Sólstafir, Krabbameinsfélagið Sigurvon, Íþróttfélagið Ívar og MND-félagið. Orkuvirki er reykvískt fyrirtæki sem starfar um allt land við uppsetningu rafbúnaðar í spennuvirkjum, virkjunum og í stóriðju. Síðustu 10 mánuði hefur fyrirtækið unnið að uppsetningu á búnaði í nýjum spennistöðvum á Ísafirði og í Bolungarvík.

„Nú höfum við verið að störfum hér fyrir vestan í um 10 mánuði og höfum notið velvildar og góðrar þjónustu frá öllum sem við höfum leitað til. Við höfum líka mjög meðvitað reynt að nýta okkur alla þá þjónustu sem er til staðar á svæðinu og hefur hentað okkur,“ segir í frétt frá fyrirtækinu.

„Við höfum keypt eins mikið og okkur hefur verið unnt bæði hvað varðar almennan aðbúnað fyrir okkar starfmenn sem og ýmsa aðra þjónustu og við höfum átt eistaklega gott samstarf og viðskipti við fyrirtæki hér. Orkuvirki hefur að jafnaði reynt að láta gott af sér leiða þar sem við störfum. Við höfum verið hér í vinnu við endurnýjun á öllu raforkukerfinu bæði hjá Orkubúi Vestfjarða og kerfi Landsnets. Við vitum að núna þegar við yfirgefum svæðið þá munu Vestfirðingar búa við mun öruggara raforkukerfi en þeir hafa nokkurn tímann kynnst. Við erum stoltir af því að hafa verið stórir þátttakendur í þessari uppbyggingu.

Í tilefni þess að verki okkar er nú senn að ljúka hér en við vonumst svo sannarlega til þess að geta veitt Vestfirðingum meiri þjónustu þegar fram líða stundir, þá langar okkur til þess að veita nokkra styrki til góðra mála. Þegar við hjá Orkuvirki vorum að ákveða þessar styrkveitingar reyndum við að velja það þannig að styrkirnir geri samfélagið betra, þar sem þeir lenda,“ segir ennfremur í frétt frá fyrirtækinu.

Back To Top